-
Hvar Flóahreppur,
Iceland -
Viðburður byrjar
11
Ungmennafélagið Þjótandi ætlar að halda keppni í „Brokk og skokk“ á sveitahátíðinni Fjör í Flóa og þjófstarta þar með Hreyifiviku UMFÍ. Keppnin fer fram á bökkum Þjórsár neðan við Þjórsárver, en keppnin verður ræst á síðarnefnda staðnum. Mæting er á bílastæðið við Þjórsárver. Keppnin mun fara fram á sunnudaginn 28. maí kl 11:00. Ungmennafélagið hélt keppnina í fyrsta sinn á síðasta ári og vakti hún mikla lukku. Brokk og skokk er liðakeppni, þar sem hvert lið skipa 2 einstaklingar ásamt einum hesti. Einstaklingarnir skiptast á að sitja hestinn og hlaupa. Keppt verður í tveimur flokkum, það er annars vegar fjölskylduhringur og hinsvegar íþróttahringur. Í íþróttahringum sem er um 6 km að lengd eru allir keppendur ræstir samtímis. Á leiðinni eru fimm fyrirfram ákveðnar skiptistöðvar, það verður að skipta á að minnsta kosti fjórum þeirra. Sem sagt sá sem ríður hestinum af stað skilur hestinn eftir á fyrstu skiptistöð og hleypur áfram. Svo þegar sá sem hljóp af stað fyrsta legginn kemur að fyrstu skiptistöð, þá tekur hann hestinn og ríður áfram. Og síðan koll af kolli, alla leið í mark. Eins og áður segir verður að skipta um knapa og hlaupara á að minnsta kosti 4 skiptistöðvum. Það lið sem er síðan fyrst í mark, með báða liðsmenn, vinnur. Í fjölskylduhringum sem er um 2 km að lengd, eru engar skiptistöðvar og heimilt er að teyma börn undir 8 ára aldri alla leiðina. En séu börn kominn yfir 8 ára aldur, þá verður að skipta að minnsta kosti einu sinni um knapa. Það má gera hvenær og hvar sem er í brautinni. Keppendur mæta sjálfir með hesta til keppninar og er öllum keppendum skylt að bera hjálma. Auk þess þurfa keppendur að klæðast gulum vestum sem Þjótandi mun útvega. Gott væri ef þeir keppendur sem ætla að taka þátt væru búnir að skrá sig til leiks í seinasta lagi fimmtudaginn 25. maí hjá Jóni Gunnþóri í síma 773-4548.